Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Ábyrgðarmaður: Hlíf Sigurjónsdóttir s 863 6805

Í haust og vet­ur tek­ur Lista­safn Sigur­jóns Ólafs­son­ar upp þá ný­breytni að standa fyrir menn­ingar­við­burð­um − tón­leik­um, flutn­ingi hljóð­rita og kynn­ing­um á sögu­legu efni − í sal safns­ins á Laugar­nesi. Hafa verið fest kaup á vönd­uð­um hljóm­flutn­ings­tækj­um og mynd­varpa í þeim til­gangi.
      Stefnt er að tveim­ur lot­um í vet­ur, ann­ars veg­ar í okt­ób­er og nóv­emb­er, og hins veg­ar á vor­mán­uð­um 2023. Við­burð­irn­ir verða í anda sumar­tón­leik­anna, á þriðju­dags­kvöld­um, um klukku­stund­ar lang­ir og boð­ið er upp á kaffi í kaffi­stofu safns­ins á eftir þar sem rabba má við flytj­endur. Þessir við­burð­ir munu þó hefjast klukk­an 20:00, í stað 20:30 eins og sumar­tón­leik­arn­ir gera.
Dagskrá haustsins
Haustdagskráin hefst þriðjudagskvöldið 18. október klukkan 20:00 á því að flutt verður hljóð­ritun frá stór­merki­leg­um tón­leik­um sem haldn­ir voru í Trí­pólí bíói fyrstu dag­ana í sept­emb­er 1945, þar sem hinn heims­þekkti þýski fiðlu­leik­ari Adolf Busch lék ein­leik með Strengja­sveit Tón­listar­fje­lags­ins. Flutt voru verk eftir J.S. Bach: Fiðlu­kon­sert­ar í a moll og E dúr og Són­ata fyrir ein­leiks­fiðlu í C dúr auk kafla úr Part­ítu í d moll. Var þetta fyrsta heim­sókn Adolf Busch hing­að, en hann mynd­aði sterk tengsl við Ís­land og kom oft til lands­ins og með hon­um aðrir frá­bær­ir tón­listar­menn svo sem Rudolf Serkin og með­lim­ir Busch Strengja­kvart­etts­ins. Ríkis­útvarp­ið hljóð­rit­aði tón­leik­ana á lakk­plöt­ur sem eru for­gengi­leg­ar og hefur Hreinn Valdi­mars­son tækni­mað­ur Út­varps­ins flutt efnið yfir á varan­leg­an geymslu­mið­il. Eru Út­varp­inu og Hreini færð­ar þakk­ir fyrir að fá að flyja þetta efni.
Dag­skrá þessi var áð­ur flutt í Lista­safni Sigur­jóns í maí í vor, en fáir sáu sér fært að mæta og hafa bor­ist ósk­ir um að hann verði endur­tek­inn.

„Hann hef­ur hina verk­legu tækni svo full­kom­lega á valdi sínu, svo að leikn­in er alveg við­stöðu­laus og af­burða mik­il, en hann skart­ar ekki með því skrauti, sem mörg­um fiðlu­snill­ing­um er gjarnt á að tildra, oft­ast á kostn­að tón­skáld­anna, en sjálf­um sér til fram­drátt­ar hjá áhrifa­gjörn­um á­heyr­end­um, sem hættir við að meta gljá­ann meira en dýpt­ina. Að lok­um vil ég taka það fram, að það eru al­kunn sann­indi, að persónu­leiki lista­manns­ins flýt­ur með í list hans, þann­ig að mik­ill lista­mað­ur er ekki ein­ung­is galdra­meist­ari á sviði tækn­inn­ar, hann er einn­ig mik­ill persónu­leiki bú­inn góð­um gáf­um og mann­kost­um, því að göfg­in í list­inni sprett­ur upp úr djúpi sálar­inn­ar og gæð­um hjart­ans. Fyrir mér er Adolf Busch fremsti túlk­andi klass­iskr­ar list­ar á sínu sviði fyrir þessa eigin­leika sína.“
Þannig skrifar „B.A.“ um fyrstu tónleika Adolf Busch í Vísi 24. ágúst 1945



Björn Ólafsson konsertmeistari í góðra vina hópi, Rudolf Serkin t.v. og Adolf Busch t.h. Myndin sennilega tekin er þeir tengdafeðgar heimsóttu Ísland 1946

„Adolf Busch: The Live of an honest Musician“
Adolf Busch fædd­ist í Þýska­landi 1891, nam og út­skrif­að­ist frá tón­listar­skól­an­um í Köln og fór þá til Bonn í tón­smíð­anám. Hann hafði hug á að helga sig alveg tón­smíð­um, enda fjöl­hæft tón­skáld, en árið 1912 tók hann boði um að fara til Vínar­borg­ar sem kon­sert­meist­ari. Þar starf­aði hann næstu 6 ár­in en fékk þá stöðu við Ríkis­háskól­ann í Berl­ín. Árið 1922 sagði hann laus­um öll­um em­bætt­um og kennslu­störf­um til að geta ein­göngu gef­ið sig að hjóm­leikahaldi. Hann sett­ist að í Darm­stadt, á­samt Rud­olf Serk­in píanó­leik­ara, sem þá var orð­inn tenda­son­ur hans.
    Þó Adolf væri ekki af gyðinga­ætt­um og mjög vin­sæll í Þýska­landi taldi hann sig ekki geta með góðri sam­visku búið þar, vegna upp­gangs naz­ista og flutti fjöl­skyld­an til Basel í Sviss árið 1927 og fékk síð­ar sviss­neskt ríkis­fang. Hann hélt þó áfram að halda tón­leika í Þýska­landi allt til 1. apríl 1933, en þann dag hófu naz­ist­ar mark­vissa árás á fyrir­tæki gyð­inga. Þá af­lýsti hann öll­um tón­leik­um sín­um þar í landi. Til­raunir Hitl­ers til að lokka hann til baka, þenn­an „mesta þýska fiðlu­leik­ara ver­ald­ar“, báru ekki ár­ang­ur. Við upp­haf heims­styrj­ald­ar­inn­ar síð­ari flutti Adolf Busch til Ver­mont í Banda­ríkj­un­um og fé­lag­ar í Busch kvart­ett­in­um með hon­um.
    Í Bandaríkjunum náði Busch aldrei að endur­heimta þá hylli sem hann hafði notið í Evr­ópu. Þarlendir á­heyr­end­ur heill­uð­ust af yngri og glæsi­legri lista­mönn­um eins og Jascha Heif­etz og fannst stíll Busch ef til vill gamal­dags.
    Adolf Busch kom fyrst til Ís­lands í ágúst 1945 í boði Tón­listar­fjelags­ins í Reykja­vík, vafa­laust í gegn­um hina þýsku og austur­rísku lista­menn sem hér voru þá. Hann hélt ferna tón­leika í Reykja­vík, tvenna með Árna Krist­jáns­syni píanó­leik­ara og með kammer­sveit Tónlistarfjelagsins þann 1. sept­ember sem hann varð að endur­taka daginn eftir vegna að­sókn­ar. Rík­is­útvarp­ið hljóð­ritaði þá tón­leika og verða þeir leiknir í vönduðum hljómtækjum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 18. október 2022. Tveim­ur ár­um síð­ar hélt Tón­listar­fjelag­ið há­tíð í til­efni þess að 120 ár voru lið­in frá and­láti Beet­hovens. Aðal­gestir há­tíð­ar­inn­ar voru Adolf Busch og strengja­kvart­ett hans sem léku með­al ann­ars alla strengjakvart­etta Beet­hov­ens. Busch og tengda­sonur hans, Rudolf Serk­in píanó­leik­ari, tengd­ust Íslandi sterk­um bönd­um og komu nokkr­um sinn­um hingað. Adolf nefndi son sinn Nic­holas Ragn­ar (1948 − 2005) eftir Ragn­ari í Smára, eins trygg­asta stuðnings­manns ís­lenskr­ar menn­ing­ar á lið­inni öld. Adolf Busch bauð Birni Ólafssyni að koma til sín vestur um haf og þáði Björn það, var þar frá ágúst 1947 til maí 1948.
Adolf Bush er minnst, ann­ars veg­ar sem af­burða fiðlu­leik­ara og tón­skálds, og hins veg­ar var hann tal­inn tákn­gerf­ing­ur sið­ferð­is á þrauta­tím­um í Evr­ópu. Hann var tals­mað­ur hins sí­gilda þýska fiðlu­leiks og sem leið­ari Busch kvart­etts­ins og ann­arra kammer­hljóm­sveita lagði Busch áherslu á tón­list­ina fram yfir glæsi­leik og sýndar­mennsku. Tit­illinn á ævi­sögu hans eftir Tully Potter sem kom út árið 2010 segir mikið um þennan listamann: „Adolf Busch: The Live of an honest Musician“.