<
Fréttatilkynning − í vafra −
Adolf Busch (1891 − 1952) Johann Sebastian Bach (1685 − 1750) Björn Ólafsson (1917 − 1984)


Bach − Busch − Björn


Lista­safn Sigur­jóns Ólafs­sonar býð­ur, í sam­starfi við Safn RÚV, til Bach há­tíð­ar í safn­inu á Laugar­nesi næst­kom­andi þrjá sunnu­daga, 15., 22., og 29. maí, klukk­an 17:00.

    Þá gefst áheyr­end­um kost­ur á að hlýða á sjald­heyrð­ar upp­tök­ur með leik Björns Ólafs­sonar kon­sert­meist­ara og þýska fiðlu­snill­ings­ins Adolf Busch ásamt kammer­sveit. Upp­tök­ur þess­ar eru úr fór­um Ríkis­útvarps­ins og hefur Hreinn Valdi­mars­son yfir­fært þær á staf­rænt form og hljóð­hreins­að. Hlýtt verð­ur á upp­tök­urn­ar úr hljóð­kerfi frá Stúdíó Sýrlandi. Hlíf Sigur­jóns­dótt­ir kynnir.

    Á fyrstu tón­leik­un­um, 15. maí, verða endur­flutt­ir tón­leik­ar sem haldn­ir voru í Tríp­ólí bíói fyrstu dag­ana í sep­tem­ber 1945, þar sem Adolf Busch lék ein­leik með ís­lenskri kammer­sveit. Þess­ir tón­leik­ar eru enn í minn­um þeirra sem þá sóttu, þar á með­al Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur fyrr­ver­andi for­seta Ís­lands. Hlíf Sig­ur­jóns­dótt­ir fjall­ar um áhrif heim­sókn­ar Adolf Busch til Ís­lands á Björn Ólafs­son.

    Á síð­ari tón­leik­un­um verða flutt­ar hljóð­rit­an­ir Björns Ólafs­sonar á fimm fiðlu­einleiks­verku­m Johann Sebast­ian Bach sem hann hljóð­rit­aði í Út­varps­hús­inu á Skúla­götu á ár­unum 1959 − 1961.
                   
„Hann hef­ur hina verk­legu tækni svo full­kom­lega á valdi sínu, svo að leikn­in er alveg við­stöðu­laus og af­burða mik­il, en hann skart­ar ekki með því skrauti, sem mörg­um fiðlu­snill­ing­um er gjarnt á að tildra, oft­ast á kostn­að tón­skáld­anna, en sjálf­um sér til fram­drátt­ar hjá áhrifa­gjörn­um á­heyr­end­um, sem hættir við að meta gljá­ann meira en dýpt­ina. Að lok­um vil ég taka það fram, að það eru al­kunn sann­indi, að persónu­leiki lista­manns­ins flýt­ur með í list hans, þann­ig að mik­ill lista­mað­ur er ekki ein­ung­is galdra­meist­ari á sviði tækn­inn­ar, hann er einn­ig mik­ill persónu­leiki bú­inn góð­um gáf­um og mann­kost­um, því að göfg­in í list­inni sprett­ur upp úr djúpi sálar­inn­ar og gæð­um hjart­ans. Fyrir mér er Adolf Busch fremsti túlk­andi klass­iskr­ar list­ar á sínu sviði fyrir þessa eigin­leika sína.“
Þannig skrifar „B.A.“ um fyrstu tónleika Adolf Busch í Vísi 24. ágúst 1945
Adolf Busch fædd­ist í Þýska­landi 1891, nam og út­skrif­að­ist frá tón­listar­skól­an­um í Köln og fór þá til náms í tón­smíð­um í Bonn. Hann hafði hug á að helga sig alveg tón­smíð­um, enda fjöl­hæft tón­skáld, en árið 1912 tók hann boði um að fara til Vínar­borg­ar sem kon­sert­meist­ari. Þar starf­aði hann næstu 6 ár­in en tók þá stöðu við Ríkis­háskól­ann í Berl­ín. Árið 1922 sagði hann laus­um öll­um em­bætt­um og kennslu­störf­um til að geta ein­göngu gef­ið sig að hjóm­leikum. Hann sett­ist að í Darm­stadt, á­samt Rud­olf Serk­in píanó­leik­ara, sem þá var orð­inn tenda­son­ur hans.
 
    Þó Adolf væri ekki af gyðinga­ætt­um og mjög vin­sæll í Þýska­landi taldi hann sig ekki geta með góðri sam­visku búið þar, vegna upp­gangs naz­ista og flutti fjöl­skyld­an til Basel í Sviss árið 1927 og fékk síð­ar sviss­neskt ríkis­fang. Hann hélt þó áfram að halda tón­leika í Þýska­landi allt til 1. apríl 1933, en þann dag hófu naz­ist­ar mark­vissa árás á fyrir­tæki gyð­inga. Þá af­lýsti hann öll­um tón­leik­um sín­um í Þýska­landi. Til­raunir Hitl­ers til að lokka hann til baka, þenn­an „mesta þýska fiðlu­leik­ara ver­ald­ar“, báru ekki ár­ang­ur. Við upp­haf heims­styrj­ald­ar­inn­ar síð­ari flutti Adolf Busch til Ver­mont í Banda­ríkj­un­um og fé­lag­ar í Busch kvart­ett­in­um með hon­um.
 
    Í Bandaríkjunum náði Busch aldrei að endur­heimta þá hylli sem hann hafði notið í Evr­ópu. Þarlendir á­heyr­end­ur heill­uð­ust af yngri og glæsi­legri lista­mönn­um eins og Jascha Heif­etz og fannst stíll Busch ef til vill gamal­dags.
 
    Adolf Busch kom fyrst til Ís­lands í ágúst 1945 í boði Tón­listar­félags­ins í Reykja­vík, vafa­laust í gegn­um hina þýsku og austur­rísku lista­menn sem voru hér þá. Hann hélt ferna tón­leika í Reykja­vík, tvenna með Árna Krist­jáns­syni píanó­leik­ara og þá síð­ustu, sem hann varð að endur­taka vegna að­sókn­ar, með Strengja­sveit Tónlistar­félags­ins. Rík­is­útvarp­ið hljóð­ritaði þá tón­leika á lakk­plöt­ur og verða þeir endur­flutt­ir í Lista­safni Sigur­jóns 15. maí. Tveim­ur ár­um síð­ar hélt Tón­listar­fél­ag­ið há­tíð í til­efni að því að 120 ár voru lið­in frá and­láti Beet­hovens. Aðal­gestir há­tíð­ar­inn­ar voru Adolf Busch og strengja­kvart­ett hans sem léku með­al ann­ars alla kvart­etta Beet­hov­ens. Busch og tengda­sonur hans, Rudolf Serk­in píanó­leik­ari, tengd­ust Íslandi sterk­um bönd­um og komu nokkr­um sinn­um hingað. Adolf nefndi son sinn Nic­holas Ragn­ar (1948 − 2005) eftir Ragn­ari í Smára, eins trygg­asta stuðnings­manni ís­lenskr­ar menn­ing­ar á lið­inni öld. Hann bauð Birni Ólafssyni að koma til sín vestur um haf og þáði Björn það, frá ágúst 1947 til maí 1948.
 
    Adolf Busch er minnst, ann­ars veg­ar sem af­burða fiðlu­leik­ara og tón­skálds, og hins veg­ar var hann tal­inn tákn­gerf­ing­ur sið­ferð­is á þrauta­tím­um í Evr­ópu. Hann var tals­mað­ur hins sí­gilda þýska fiðlu­leiks og sem leið­ari Busch kvart­etts­ins og ann­arra kammer­hljóm­sveita, lagði Busch áherslu á tón­list­ina fram yfir glæsi­leik og sýndar­mennsku. Tit­illinn á ævi­sögu hans eftir Tully Potter sem kom út árið 2010 segir mikið um þennan listamann: „Adolf Busch: The Live of an honest Musician“.

Björn Ólafsson konsertmeistari fæddist 26. febrúar 1917. Hann var meðal fyrstu nemenda Tón­listar­skólans í Reykjavík og einn þeirra fjögurra sem fyrstir voru braut­skráðir úr skólanum vorið 1934. Hann stundaði fram­halds­nám í Vínar­borg og lauk prófi þar vorið 1939 með þeim árangri að hann var strax ráðinn sem fyrsti fiðlu­leik­ari að Vínar­fíl­harmon­í­unni sem þá var undir stjórn Wilhelm Furt­wängl­ers. Hann kom heim til Íslands sumarið 1939 og ætlaði að standa stutt við, en síðari heims­styrjöldin hófst þá um haustið og kom í veg fyrir að hann kæmist aftur til Vínar.

    Björn réðst sem aðal­fiðlukennari við Tón­listarskólann í Reykjavík, varð yfir­kennari strengjadeildar skólans og stofnaði hljómsveit Tón­listar­skólans. Þegar Sin­fóníu­hljóm­sveit Íslands var stofnuð árið 1950 varð hann fyrsti konsert­meistari hljóm­sveitar­innar og hélt þeirri stöðu til 1972.

    Árið 1942 kvæntist hann Kolbrúnu Jónas­dóttur og dvöldu þau mörg sumur hjá skyldfólki Kolbrúnar á Halldórsstöðum í Laxárdal og undi Björn sér hvergi betur en þar.

    Björn Ólafsson var í fram­varðar­sveit þeirra einstaklinga sem með þrotlausri vinnu sinni og hugsjónum náðu að auðga menningarlíf vort svo að við urðum á örskömmum tíma samkeppnishæf við aðrar Evrópu­þjóðir. Hann lést í Reykjavík 1984.
Johann Sebastian Bach fæddist 1685 inn í þekkta tón­listar­fjöl­skyldu í Eisen­ach árið 1685. For­eldr­ar hans lét­ust báð­ir er hann var barn að aldri og flutti hann þá til elsta bróð­ur síns, sem var organ­isti í ná­granna­bæn­um Ohr­druf, og stund­aði þar tón­listar­nám.

    Í upp­hafi ferils síns starf­aði hann sem organ­isti og um tíma einn­ig sem hirð­hljóð­færa­leik­ari, en var ráð­inn til hirðar Wil­helm Ernst greifa af Weim­ar árið 1708. Sex árum síðar varð hann konsert­meist­ari við sömu hirð. Árið 1717 yfir­gaf hann Weim­ar og réðst til starfa að hirð Leo­polds prins af Anhalt-Cöthen til árs­ins 1723. Það­an fór hann til Leip­zig og gegndi stöðu kant­ors við Tómasar­kirkj­una til dauða­dags árið 1750.

    Meðan Bach starf­aði sem organ­isti í Weim­ar samdi hann mörg orge­lverk og var þekkt­ur og viður­kennd­ur sem orgel­leik­ari. Í Cöt­hen hafði hann eng­um kirkju­leg­um skyld­um að gegna, en bar hins vegar ábyrgð á öll­um tón­listar­flutn­ingi við hirð­ina og samdi þá fjölda verka fyrir hin ýmsu hljóð­færi. Í Leip­zig skóp hann bæði kirkju­lega og verald­lega tón­list.

    Árið 1720, meðan hann var í Cöt­hen, samdi hann sex ein­leiks­verk fyrir fiðlu, þrjár són­ötur og þrjár part­ítur. Hann bygg­ir þau á ríkj­andi hefð þýsks fiðlu­skóla. Þær til­gát­ur eru uppi að hann hafi sam­ið þau sem æf­ing­ar líkt og Pagan­ini gerði síðar með Capr­isur sínar. Ljóst er að Bach hefur þekkt fiðl­una mjög vel og með sínu frjóa ímynd­unar­afli séð fyrir enn ó­upp­götv­aða mögu­leika hljóð­færis­ins. Hann lést 1750.