Gríma, 1947

Sigurjón hafði mikið dálæti á sterku myndmáli fornra þjóða: Etrúska, Egypta, Maya og Inka og ekki síst Grikkja á arkaíska tímabilinu svonefnda. Í upphafi 20. aldar leituðu margir listamenn, eins og Picasso, fanga í list svokallaðra frumstæðra þjóða, og varð gríman mjög mikilvægt mótíf í verkum margra þeirra listamanna, sem kenndir hafa verið við módernisma allt fram yfir miðja 20. öld.
    Í grímunni sáu þeir leið til að hreinsa burt natúralisma og lýsa í staðinn sterkum tilfinningum í verkum sínu. Gríman er ævafornt fyrirbæri og hefur verið notuð víða um heim í trúariðkun og til að ná sambandi við yfirnáttúruleg öfl. Nægir hér að nefna þjóðflokka í Afríku og Ínúita á Grænlandi og Alaska. Gríman er einnig verkfæri leikara og tvær grímur eru táknmynd leiklistar. Stækkuð afsteypa af Grímunni stendur við Borgarleikhúsið í Reykjavík.
    Danska skáldkonan Susanne Jorn hefur ort ljóð til þessa verks sem Steinunn Sigurðardóttir hefur þýtt yfir á íslensku:
Gríma
Sumir dagar eru þannig
að ég verð
minni og minni

Á þeim dögum
set ég upp grímur, fer í búninga
er ég tvífari
lifi tvöföldu lífi

Á þeim dögum
umfaðma ég Heiminn
neita að sleppa
af því ég elska hann svo heitt

Sumir dagar eru þannig
að ég verð
stærri og sterkari

Á þeim dögum
ber ég Heiminn
á höfðinu
af því að annars
mun hann bresta