Surtur, 1968

Surtur er eitt þeirra fjölmörgu verka Sigurjóns sem vísa í náttúruna eða náttúruöflin. Uppistaðan í verkinu er dökkur trékubbur og úr honum teygja sig hárbeittar látúns- og koparplötur út í rýmið. Þær hafa ýmsa lögun og áferð og eru í mismunandi litum. Greinileg líking er milli þessa verks og eldgossins í Surtsey eins og það birtist í fréttamyndum á árunum 1963-67. Surtur er talinn jötunn elds og eimyrju, hann ríður um jörðina ásamt Múspellssonum með glóandi sverði og brennir jörðina.
    Surtur er gerður eftir að Sigurjón bjó til Hávaðatröllið við Búrfellsvirkjun, og eru margar koparplöturnar afskurður úr þeirri mynd.
    Danska skáldkonan Susanne Jorn hefur ort ljóð til þessa verks, í þýðingu Steinunnar Sigurðardóttur:
Surtur

Hann kom úr Suðrinu
úr glóandi löndum
úr miðri hraunkviku Jarðar
Handleggir hans og fætur voru gerðir af logum
Sverðið sindraði bjartara en sólin

Hann sprengdi fjöllin
sundraði himninum
Hann varpaði eldi á Jörðu
og brenndi Heiminn

Hann brenndi ekki
tréhjartað sitt
Hann skaraði áfram
í snarkandi eld ástríðnanna