Faðmlög, 1949

Verkið hefur vísanir til stjórnmálaumræðu þess tíma er Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Tilgangur bandalagsins er að ríki innan þess veiti hvert öðru hernaðaraðstoð þannig að árás á eitt ríki jafngildi árás á þau öll. Alþingi samþykkti inngöngu í bandalagið 1949 en margir voru afar mótfallnir þessu og þjóðin skiptist í tvær fylkingar. Sigurjón kallaði verkið stundum NATO og tjáði sig þannig um þetta mál.
    Myndin er úr íslensku grágrýti, stór og mikil, með sléttum flötum og hvössum brúnum. Formin sjálf hringast utan um einhverjar verur og fangbrögðin, jafnt og fótastellingar lýsa hvernig þrengir að þeim.