Séra Friðrik Friðriksson, 1952

Eftir að Sigurjón kom heim frá Danmörku árið 1945 tók hann að sér að gera höfuð- og standmyndir bæði fyrir opinbera aðila og einstaklinga, en hann hafði öðlast góða reynslu af því í Danmörku. Á sýningu sem Sigurjón hélt í Listvinasalnum 1952 var meðal annars andlitsmynd úr brenndum leir sem hann hafði gert af vini sínum, séra Friðriki Friðrikssyni þegar þeir voru innlyksa í Danmörku á stríðsárunum 1940-45. Þar kviknaði sú hugmynd meðal KFUM félaga að fá Sigurjón til að gera veglega standmynd af séra Friðriki, stofnanda hreyfingarinnar. Sigurjón gerði lítið vinnumódel fyrir styttuna árið 1952 og kom séra Friðrik og sat fyrir í vinnustofu Sigurjóns í hermannabragganum á Laugarnesi. Sigurjón stækkaði síðan myndina eftir líkaninu á Listakademíinu í Kaupmannahöfn þetta sama sumar, og þar var styttan steypt í gifs og síðar í brons. Með þessu sparaðist kostnaður við að flytja stóra gifsmynd til Danmerkur.
    Sigurjón flutti einnig fyrrgreinda andlitsmynd af séra Friðrik með sér til Danmerkur og hafði hana til hliðsjónar er hann stækkaði höfuðið á standmyndinni.
    Myndin var reist við Lækjargötu norðan Amtmannsstígs áríð 1955, stutt frá heimili séra Friðriks sem þá var á lífi.