Glerskreyting í Landsbankanum á Selfossi, 1954

Sigurjón var meðal fyrstu listamanna á Íslandi - ef ekki sá fyrsti - til að gera myndir í gler með sandblæstri, tækni sem Steinsmiðja Magnúsar R. Guðnasonar hafði yfir að ráða upp úr 1950. Þá gerði hann samstæðu úr 12 rúðum, tveimur stórum í millihurðir og 10 minni í vegg milli anddyrs og afgreiðslusalar Landsbankaútibúsins á Selfossi. Hann gerði skapalón sem lagt var á glerplötuna og varði þau svæði sem áttu að vera gagnsæ, en það sem blásið var á gleypti birtuna og lýstist. Rúðurnar voru lagðar á svartan flöt og ljósmyndaðar áður en þær voru settar í og eru þær myndir birtar á vefsvæði safnsins. Þetta var eina verk Sigurjóns sem gert var á þennan hátt.
    Myndirnar lýsa náttúrunni og atvinnuvegum, heyskap, fiskveiðum, flutningum til lands og sjávar og iðnaði. Stóru myndirnar tvær í hurðunum sýna karlmann við vinnu og konu með barn og yfir dyrunum er mynd af Ölfusárbrúnni.
    Af ljósmyndunum, til dæmis af svönunum, má sjá hvernig Sigurjóni tekst að mynda ljós og skugga með því að stjórna hve djúpt var blásið í glerið.
    Ljósmyndirnar sýna líka glöggt hve agaður teiknari Sigurjón var, jafnvel þótt myndirnar séu einfaldaðar og stílfærðar.