Holskefla, 1970 - 1971

Eftir langvarandi veikindi á árunum 1960-62 varð Sigurjón að hætta að höggva í grjót. Til þess að koma myndum sínum í varanlegt efni hóf Sigurjón að vinna verk úr koparplötum, sem hann lét sjóða saman. Þannig urðu stóru súluverk hans til, Íslandsmerki og Öndvegissúlur í Reykjavík, og Hávaðatröllið við Búrfellsstöð. Það var einkennandi fyrir þessi koparverk að Sigurjón vildi ekki fela eða fínpússa samskeytin eftir suðuna, heldur lét hann grófleika efniviðarins vera sýnilegan - honum fannst það gefa verkinu meira líf.
    Árið 1969 gerði Sigurjón líkan í tré af verki sem hann nefndi Holskeflu, Hún var stækkuð upp í ríflega 3 metra hæð, soðin saman úr koparplötum og reist á háan stöpul við Félagsheimilið Stapann í Ytri Njarðvík.
    Verkið samanstendur af fjórum eins löguðum bogalaga formum, og tengist stöpli sínum með fimmta forminu sem er lóðrétt öðru megin og bogadregið hinu megin. Þetta er eitt af fáum verkum þar sem Sigurjón notast við geometrisk form. Það er spurning hvort það megi flokka verkið sem 'geometrisk afstraksjón' eða 'konkret' list, en í þeim flokki eru listaverk sem hafa ekki skírskotun til neins úr raunveruleikanum.