Íslandsmerki, 1973

Árið 1969 var Sigurjóni falið að gera listaverk í tilefni 25 ára lýðveldis á Íslandi. Hann lauk verkinu, sem almennt er nefnt Íslandsmerki, árið 1973, en stytturnar voru ekki reistar fyrr en 1977 á Hagatorgi í Reykjavík. Fullt heiti verksins er: „Minnismerki um stofnun lýðveldis á Íslandi 1944“.

    Verkið er úr koparplötum, þyrping geometrískra súlna með stórum flötum en lífrænu yfirbragði og minna á forngrískar súlur. Um þetta leyti gerði Sigurjón fjölda súlulaga verka, en Íslandsmerki er stærst þeirra. Súlurnar hafa nánast mannlegt yfirbragð - hver og ein hefur sín eigin sérkenni. Þær standa í hnapp og mynda hóp, fjölskyldu eða sam­félag, þar sem áhrifamáttur felst í því að vera hluti af sterkri heild.

    Danska skáldið Hans Mølbjerg lítur þessum augum á þetta verk:
 
Skak i bronze

Trafikken har fordrevet
ravnene
men Odin spiller skak
i disse meterhøje søjler
der står tilbage her
opstillede
i denne fastskruede position
af ikke forudsigelige
kombinationer
Som om man blot afventede
en helt uforudset
åbning
        med den 17. juni 1944

Hans Mølbjerg


Skák í bronsi

Umferðin hefur hrakið
hrafnana burt
en Óðinn situr að tafli
í þessum margra metra háu
súlum
sem standa hér eftir
í þessari geirnegldri stöðu
með ófyrirsjáanlegum leikfléttum
rétt eins og
aðeins væri beðið eftir
að óvænt opnist ný leið
frá og með
17. júní 1944.
Hans Mølbjerg
Íslensk þýðing: Thor Vilhjálmsson