Spor í sandinn, 1982

Spor í sandinn er síðasta verk sem Sigurjón lauk við. Um það yrkir danska skáldkonan Susanne Jorn, í íslenskri þýðingu Steinunnar Sigurðardóttur:
Spor í sandinn

Um leið og hann byrjaði
að smíða kistuna sína
sagði Dauðinn:
„Hún er of stór“.

Án þess nokkur vissi
fór hann að heiman
og var kominn á ról
í fjöru barnæskunnar
á Eyrarbakka
Undir festingu úr safír
í hávaðaroki

Svartur sandur feyktist í augu hans
Hendurnar voru þrútnar
Hann fór úr skónum
og gekk hraðar til þess að halda í við tímann
ekki beint af augum
heldur í spírölum
vatt hann sig áfram
án þess að horfa til baka
og var þá allt í einu
villtur í völundarhúsi

Hann leit um öxl
á þankastrik og punktalínur
fótsporanna út um alla strönd:
Hlekkir Lífskeðjunnar
öll skepnan
Litlar lukkueyjar í röð
sár, blóðblettir, ör

Enn á ný svimi
Óskýr sjón
Skugginn var að sjá eins og pollur
eins og þrykk af fallandi líkama hans
bólgnum fótum

Hann stóð aftur upp
Steig alsíðasta margslungna sporið
í dansinum við Lífið
Klár í kistuna
tók hann fyrsta einfalda sporið
afturábak og fór
að dansa við Dauðann
í sama svarta íslenska sandinum.