ÁFANGAR

Sýningin spannar rúmlega 50 ára tímabili um miðbik liðinnar aldar og gefur innsýn í hin mismunandi tímabil í listferli Sigurjóns.


Sigurjón hóf nám við Listakademíið í Kaupmannahöfn haustið 1928, og í elsta verkinu á sýningunni, lágmynd af tveimur systrum frá 1929, sjást greinileg áhrif þeirra listaverka sem Sigurjón hafði séð heima á Íslandi, til dæmis verka Einars Jónssonar og ekki síst hinum vinsælu afsteypum Bertels Thorvaldsen, Dagurinn og Nóttin, en þær lágmyndir prýða fjölda legsteina í kirkjugörðum landsins.
    Hið hefðbundna nám í akademíinu átti vel við Sigurjón, en eftir að hafa lokið við gullverðlaunamynd sína af Verkamanni árið 1930 fékkst hann við ýmsar tilraunir eins og aðrir danskir framúrstefnu listamenn sem fylgdust með þróun kúbismans og súrrealismans á meginlandi Evrópu. Í þeirri grósku sem ríkti á þriðja áratugnum í dönsku menningarlífi skóp Sigurjón áhrifamikil rýmisverk með einfölduðum, nánast abstrakt formum. Mörg þeirra eru í erlendum söfnum, en önnur á Íslandi, meðal annars Fótboltamenn og Þrá.
    Um það leyti sem Þjóðverjar hernámu Danmörku hlaut Sigurjón sitt stærsta verkefni til þessa, tvær stórar graníthöggmyndir fyrir ráðhústorgið í Vejle á Jótlandi. Steinhöggið var ný tækni sem Sigurjón þurfti að tileinka sér og með því hófst eitt merkasta tímabil í ferli hans. Er hann kom heim til Íslands í stríðslok fór hann að vinna í íslenskt grjót og þróaði með sér persónulegan og sterkan stíl.
    En steinrykið tók sinn toll og síðla árs 1960 greindist Sigurjón með lungnaberkla og dvaldi næstu tvö árin á Reykjalundi. Þar var hann þó svo lánsamur að fá aðstöðu og aðstoð til að vinna úr járni, og þar birtast listaverk gjörólík því sem hann hafði áður gert.
    Upp úr því hóf Sigurjón að gera tilraunir með að sjóða saman koparplötur í þeim tilgangi að vinna beint í varanlegt efni og spara sér dýra bronssteypu. Ferskeytt mynd frá 1966 er undanfari stóru koparsuðumyndanna, t.d. Öndvegissúlna við Höfða og Íslandsmerkis við Hagatorg í Reykjavík.
    Nýtt tímabil hefst í listsköpun Sigurjóns á sjöunda áratug liðinnar aldar þegar hann fær sitt allra stærsta verkefni: Lágmyndir á framhlið Stöðvarhúss Búrfellsvirkjunar. Þar þróar hann aðferð til að móta lágmyndir í steinsteypu, aðferð sem hann notar á nýbyggingum á áttunda áratugnum, til dæmis á Sundaborg við Kleppsveg.
    Á síðustu tíu æviárum sínum vann Sigurjón fjöldann allan af myndum í tré, þurrkuðu efni jafnt sem rekaviði. Hann gaf þá ímyndunaraflinu lausan tauminn og bætti við nýjum víddum í listsköpun sinni.

  1. Tvær systur, 1929, LSÓ 191
Sigurjón gerði þessa lágmynd af systrunum Inger og Ingeborg Pedersen á fyrsta ári sínu við Konunglega Listakademíið í Kaupmannahöfn. Faðir systranna, Carlo Pedersen, hafði verið apótekari á Eyrarbakka í æsku Sigurjóns en var fluttur til Kaupmannahafnar og var Sigurjón heimagangur hjá fjölskyldunni. Eldri systirin, Inger Olsen, færði Listasafni Sigurjóns myndina að gjöf árið 2009 og er hún sýnd í safninu í fyrsta sinn.

  2 Verkamaður   1930, LSÓ 1017
Sigurjón hafði ætlað sér að koma heim til Íslands sumarið 1930 til að vera á Alþingishátíðinni á Þingvöllum, en varð að hætta við sökum auraleysis. Þess í stað notaði hann sumarfrí sitt til að móta rúmlega tveggja metra háan verkamann með haka og var það stærsta verkefni, sem hann hafði tekist á við til þessa.
    Alinn upp meðal sjómanna og verkafólks var viðfangsefnið honum hugstætt, og þótt mótífið tengdist félagslegu raunsæi var hin tæknilega útfærsla og formhugsunin sprottin úr klassískri list. Einnig má finna áhrif frá list samtímamanns hans, danska myndhöggvarans Kai Nielsen. Sigurjón hlaut gullverðlaun danska Listakademísins fyrir verkið, og ári síðar var það keypt af Listasafni Íslands.

  3 Kroppinbakur   1934, LSÓ 003
Elsta varðveitta andlitsmynd eftir Sigurjón er lítil lágmynd frá árinu 1924 af kennara hans, Aðalsteini Sigmundssyni (LSÓ 169). Áhugi Sigurjóns á mannsandlitinu og sérstökum persónuleikum hélst alla ævi, og eftir hann liggja um 200 andlitsmyndir.
    Kroppinbakur er gerður af slíku sálfræðilegu innsæi og listrænum yfirburðum að verkið telst með allra bestu andlitsmyndum listamannsins.

  4 Fótboltamenn  1936, LSÓ 247
Í upphafi tuttugustu aldarinnar kviknaði áhugi almennings á norðurlöndunum á heilsusamlegu líferni og iðkun íþrótta og útivistar undir kjörorðinu „hraust sál í hraustum líkama". Tímabilið 1900-1940 hefur verið kennt við hugtakið vitalisme, þar sem margir listamenn; málarar og myndhöggvarar, höfðu að fyrirmynd æskuþrótt landsins. Sigurjón hafði stundað glímu heima á Íslandi og naut þeirrar reynslu þegar þörf var á eftir að hann kom til Danmerkur. Árið 1933 eða 34 og gerði hann mynd af tveimur mönnum þreyta glímu (Glíma LSÓ 002) og á árunum 1936 og 1937 fylgdu myndir af fótboltamönnum sem vöktu gríðarlega athygli, bæði vegna dirfsku í uppbyggingu og einföldunar forms. Verkið sem hér er sýnt er gott dæmi um viðleitni Sigurjóns til að upphefja þyngdarlögmálið, skapa mynd sem svífur, en er þó í fullkomnu jafnvægi.
    Frummyndin var lengi í Danmörku, en hjónin Guðrún og Ólafur Ó. Johnson keyptu hana árið 1997 og gáfu safninu. Hér er sýnd bronsafsteypa af frummyndinni. Bronsstækkun af þessu verki var reist á Akranesi árið 2001.

  5 Móðir mín   1938, LSÓ 007
Þetta er án efa það verk Sigurjóns sem best er þekkt og afsteypur af því er að finna í ríkislistasöfnum þriggja norðurlandanna: Moderna Museet í Stokkhólmi, Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn og Listasafni Íslands í Reykjavík auk, afsteypunnar sem hér er sýnd. Um verkið er fjallað á spjöldum í sýningarsalnum.

  6 Börn að leik   1938, LSÓ 206
Með einfölduðum, ávölum formum sínum má skoða þetta verk sem beint framhald af Fótboltatímabilinu. Verkið var hluti af stærri veggmynd sem prýða skyldi Hús barnanna, sem reisa átti til minningar um H.C. Andersen í Tívolí í Kaupmannahöfn. Að heildartillögu hússins stóðu arkitektinn Henning Teisen, málarinn Egon Mathiesen og Sigurjón Ólafsson. Verkefnið hlaut verðlaun en var aldrei framkvæmt. Mörgum árum síðar notaði Sigurjón þetta mótíf fyrir veggmyndir í útibú Landsbanka Íslands, fyrst á Laugavegi 77, síðar í Lágmúla og nú á Akranesi.
    Frummynd þessi, sem er úr gifsi, var lengi í einkaeigu í Danmörku, fyrst átti hana danski arkitektinn Finn Juhl. Eimskipafélag Íslands keypti myndina árið 1991 og gaf hana safninu.

  7 Þrá   1939-40, LSÓ 234
Í framhaldi af Fótboltatímabilinu 1936-37 þróaði Sigurjón aðferðir sínar með form og efnivið. Hann vann bæði „súbtraktíft", sem þýðir að grafið eða höggvið er í efnið utanfrá, og „additíft", en þá er byrjað innst og verkið mótað innanfrá, leir eða gifsi er bætt við. Þrá vann Sigurjón „additíft" í leir og gifs, en verkið hefur nú verið steypt í brons.
    Árið 1994 keypti Listasafn Sigurjóns frummyndina af einkasafnara í Danmörku, sem hafði átt hana í 50 ár. Hún hafði aðeins einu sinni verið sýnd opinberlega, á sýningu með húsgögnum eftir danska arkitektinn Finn Juhl árið 1941.
    Finn Juhl hafði miklar mætur á myndhöggvurum samtímans og sótti innblástur í verk eftir, meðal annarra, Sigurjón, Erik Thommesen og Jean Arp. Í nýlegum bókum um Finn Juhl hefur Þrá ranglega verið kynnt sem verk eftir Arp. Bronsafsteypa af verkinu er nú einnig á sýningu með verkum Finns Juhl í listasafninu Trapholt í Danmörku.

   8 Höggmyndir á Ráðhústorginu í Vejle   1941-45, LSÓ 1062 og 1063
Árið 1941 var Sigurjóni falið að vinna tvær stórar höggmyndir úr graníti fyrir Ráðhústorgið í Vejle á Jótlandi og tákna þær helstu atvinnuvegi þess sveitarfélags: landbúnað, handverk, verslun og iðnað. Sigurjón vann myndirnar á stríðsárunum, að mestu leyti einn og með hamri og meitli upp á gamla mátann.
    Þetta var síðasta og stærsta verkefnið hans á því sautján ára tímabili, sem hann starfaði í Danmörku, og um leið upphafið að mikilvægum kafla í listferli hans, steinhöggstímabilinu sem lauk á sjötta áratugnum. 

  9 Snót   1945, LSÓ 1081
Snót var fyrsta verk sem Sigurjón gerði eftir að hann flutti heim frá Danmörku haustið 1945, en þar hafði hann búið síðan hann hóf nám á Akademíinu haustið 1928. Hér sést mjög vel hvernig Sigurjón vann með massann eða „klumpinn" eins og sagt er, hvernig útlínur steinsins fá að haldast, aðeins er hoggið í tvær hliðar verksins og aldrei mjög djúpt.
    Árið 2002 orti Vilborg Dagbjartsdóttir ljóð við Snót. Það er að finna á geisladisk, sem safnið gaf út í tilefni sýningarinnar: KONAN - Maddama, kerling, fröken, frú...
    Steinmyndin er í einkaeigu, en bronsafsteypa sú sem hér er sýnd var gerð hjá Pangolin Editions í Bretlandi árið 2007 og er mjög góð eftirgerð frummyndarinnar.

  10 Fjallkonan   1947, LSÓ 010
Á fyrri hluta 20. aldar varð vinsælt meðal málara og myndhöggvara að feta í fótspor Picasso og nota grímu-mótífið í verkum sínum til að skapa nýtt og sterkara myndmál. Menn leituðu aftur til hins upprunalega og grandskoðuðu list svokallaðra frumstæðra þjóða. Verk í þessum anda hafa verið skilgreind og flokkuð sem primitívismi.
    Á árinum 1947 gerði Sigurjón þrjú verk út frá sama Grímu-mótífinu. Þessi grímumynd, sem síðar var nefnd Fjallkonan, er gerð úr tré og var upphaflega máluð í sterkum litum, en stóð lengi úti og veðraðist. Önnur útgáfa af verkinu var stækkuð eftir daga Sigurjóns og reist við Borgarleikhúsið í Reykjavík 1995.

  11 Faðmlög   1952-53, LSÓ 014
Fyrstu tólf árin eftir að Sigurjón kom frá Danmörku vann hann aðallega í grjót, samtals 26 stór verk. Faðmlög eru höggvin í þýskan sandstein og er smækkuð útgáfa af samnefndri grásteinsmynd (LSÓ 1102) sem Sigurjón gerði árið 1949 og stendur á lóð safnsins. Til stóð að senda þetta verk til Bretlands, í samkeppni um minnisvarða um hinn óþekkta hermann.
    Upphaflega myndin, sem er rétt um tveggja metra há, varð til sama ár og Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið NATO, sem var svokallað varnarbandalag undir yfirstjórn Bandaríkjanna. Þjóðin skiptist í tvennt í afstöðu sinni með eða á móti inngögnunni, og var Sigurjón mjög andvígur henni. Verkið kallaði hann einnig NATO.
    Í myndinni má greina tvö höfuð - tvær fígúrur og fjóra fætur, sem eru spenntir saman eins og hjá glímuköppum. Línur eru beinar og hvassar og formin hörð og flöt. Mest áberandi eru form sem vinda sig utan um allt verkið eins og gríðarlangir handleggir - eða eins og snákur.

  12 Kýrhaus   1955, LSÓ 022
Myndina gerði Sigurjón sumarið 1955 þegar hann dvaldi hjá tengdaföður sínum á prestsetrinu í Husby á Fjóni. Áhugi Sigurjóns á að móta eftir lifandi fyrirmynd beinist í þessu tilviki að verðlaunakú á prestsetrinu, sem hann mótaði fyrst í leir úti í fjósi (LSÓ 1135) og klappaði síðan í graníthnullung, sem hann fann þar í garðhleðslu. Þetta mótíf var honum kunnugt, því árið 1933 aðstoðaði hann prófessor Utzon-Frank við að móta risastóra lágmynd af nauti fyrir kjötmarkaðinn í Kaupmannahöfn: Tyren i Kødbyen.

  13 Steinn Steinarr
   1955, LSÓ 1137
Þessi granítmynd var, eins og Kýrhausinn, gerð á Fjóni sumarið 1955. Hér getur að líta umkomulaust barn í fagurri nekt sinni, áfast belglaga steininum - eða móðurkviði - með táknrænan streng sem tengsl milli móður og barns. Sigurjón mótaði fyrir böndum sem ná utan um steininn, sem að öðru leyti fær að halda upprunalegu formi.
    Ragnar Jónsson í Smára keypti verkið sumarið 1958 og tengdi það nafni Steins Steinarr, sem þá var nýlega látinn. Hann upplifði verkið eins og bókmenntir og mun hafa lesið það þannig: barn úr steini - steinn af steini - Steinn Steinarr. Myndin heitir því ekki lengur: Útburður, Reifabarn eða Móðir mín í kví, kví heldur Steinn Steinarr. Nafnið var klappað í steininn síðar.
    Verkið er hluti af stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ, en er varðveitt í Listasafni Sigurjóns.

  14 Siðaskiptin   1956, LSÓ 1148
Sigurjón hafði áður unnið með koparvír, meðal annars veggmynd fyrir Búnaðarbankann í Austurstræti í Reykjavík 1948, en í þessari mynd notar hann í fyrsta skipti koparplötu, sem hann mótar með því að kaldhamra hana.
    Guðrún St. Halldórsdóttir gaf safninu myndina árið 2006 í minningu bróður síns, Rúts Halldórssonar, sem keypti verkið eftir afmælissýningu Sigurjóns í Listamannaskálanum haustið 1958. Myndin hefur ekki verið sýnd opinberlega síðan.

  15 Móðir Jörð   1961, LSÓ 1177
Rykið af steinhögginu tók sinn toll af Sigurjóni og síðla árs 1960 greindist hann með lungnaberkla og þurfti að dvelja næstu tvö árin á Reykjalundi. Þar var hann þó svo lánsamur að fá aðstöðu og aðstoð við að vinna úr járni, og þar birtast listaverk gjörólík þeim sem hann hafði áður gert. Meðan Sigurjón var á Reykjalundi vann hann samtals 15 verk úr járni eða öðrum málmum.
    Meginuppistaða Móður Jarðar er lóðrétt járnplata, reist upp á rönd, og önnur þvert á, um hana miðja. Sigurjón gerði nokkrar járnmyndir út frá sömu mótífum, eins konar gangandi furðuskepnur í ætt við grásteinsverkið Maðurinn og dýrið frá 1951, sem stendur við inngang Listasafnsins. 

  16 Búrfellsvirkjun, frumdrög I   1966, LSÓ 207
Þetta munu vera fyrstu drög að lágmyndunum sem Sigurjóni var falið að gera fyrir stöðvarhús Landsvirkjunar við Búrfell. Bronsafsteypa af frummynd úr gifsi. 

  17 Búrfellsvirkjun   1966-69, LSÓ 1232
Þegar lágmyndir Sigurjóns voru gerðar á framhlið stöðvarhúss Búrfellsvirkjunar voru þær bæði afskekktasta og langstærsta listaverk eftir íslenskan listamann. Þær eru 5 metra háar, samanlögð lengd þeirra er 67 metrar og þær fylla því alls 335 fermetra veggflöt. Í þessum verkum þróar Sigurjón tækni sem ekki hafði verið notuð fyrr. Hann sker út andhverf form lágmyndanna í plötur úr frauðplasti sem síðan eru festar í steypumót veggjarins.
    Auk þess að vera stærsta verkefni Sigurjóns marka lágmyndirnar á Búrfellsstöð upphaf að nýju tímabili í list hans, lágmyndir í steinsteyptum veggjum, til dæmis á Sundaborg við Kleppsveg, Stórutjarnaskóli í Suður Þingeyjasýslu og fjölbýlishús í Reykjavík og Kópavogi.  

  18 Ferskeytt mynd   1966, LSÓ 224
Frá árinu 1964 , í framhaldi af Járnmyndatímabilinu, hafði Sigurjón gert tilraunir með að sjóða saman koparplötur í þeim tilgangi að vinna beint í varanlegt efni og spara sér dýra bronssteypu. Meðal fyrstu verka með þessari tækni má nefna Hringrás í Norræna Húsinu í Reykjavík, Handrið á tilraunastöðinni að Keldum og Höfuðáttir sem Listasafns Íslands á. Ferskeytt mynd er því ekki meðal fyrstu mynda hans með þessari tækni, en verkið er stórt í sniðum - monúmentalt - og vísar í síðari útilistaverk í Reykjavík, eins og Öndvegissúlur við Höfða og Íslandsmerki við Hagatorg. 

  19 Stormfuglinn   1975, LSÓ 1300
Fuglsminnið kemur fram í verkum Sigurjóns oft og mörgum sinnum, og má nefna sem dæmi: Fuglinn 1939, Svanir 1954, Kría 1956, Farfuglar 1961, Ég bið að heilsa 1973. Árið 1975 gerir hann tvö verk úr mahoní, Fugl næturinnar og Stormfuglinn.
Mynd þessi er gjöf til Listasafns Sigurjóns frá fyrri eigendum, Valborgu Hallgrímsdóttur og Kristjáni Guðmundssyni 1998. 

  20 Sköpun   1976/1988, LSÓ 072
Árið 1976 gerði Sigurjón líkan úr frauðplasti að verki sem hann ætlaði að láta höggva í marmara. Sjálfur var hann hættur að vinna í stein og það var ekki fyrr en eftir hans dag að aðstoðarmaður hans til margra ára, Erlingur Jónsson, hjó myndina í marmara. Á þeim árum (1985-88), stóð yfir endurbygging vinnustofu Sigurjóns og þurfti víða að leita fjárhagsaðstoðar. Af miklum höfðingskap keypti fyrirtækið Ó. Johnson & Kaaber verkið fullbúið - vinnulaun og höfundagreiðslu - af safninu og færði því aftur að gjöf í tilefni opnunar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar 21. október 1988.
    Formin, sem eru grópuð í verkið, eiga sér hliðstæður í öðrum myndum Sigurjóns; þar má greina vísanir í grósku og líf, svo sem frjósemisgyðju og vatnaveru með augum og uggum. 

  21 Forsetinn   1980, LSÓ 118
Verkið er samsett af hrjúfum timburafgöngum, fínlegum trópískum viði og málmi. Meginuppistaðan er bútur úr skipaeik sem minnir á hásæti sem í situr fínleg fígúra með kórónu og skraut, vel varin bakvið boga, sem reyndar er tunnustafur. Það virðist engin tilviljun að verkið gerði Sigurjón árið sem frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands.  

  22 Mjúk form   1981, LSÓ 129
Súlan er ríkjandi stef í myndhugsun Sigurjóns, allt frá fyrstu sjálfstæðu verkum hans í Danmörku. Í flestum myndum hans - einnig í afstraktverkunum - eru mannleg hlutföll virt og eru súlumyndir hans þar engin undantekning.
    Ef við viljum vitna í norrænu goðafræðina segir í Snorra Eddu að Maður er kenndur til viða. Og svo má nefna að Askur og Embla voru gerð úr tveim trjám sem Borssynir fundu á sjávarströnd. „Óðinn gaf þeim önd og líf, Vili gaf vit og hræring og Vé gaf ásjónu, mál, heyrn og sjón. Svo gáfu þeir þeim klæði og nöfn, manninum nafnið Askur en konunni Embla, og ólst af þeim mannkynið sem gefinn var Miðgarður til að búa í."
    Sjálfur íþyngdi Sigurjón aldrei áhorfandanum með táknum eða fyrirfram gefnum merkingum, heldur hélt hann opinni leið fyrir öllum hugsanlegum túlkunum.
    Síðustu æviárin vann Sigurjón fjölda verka úr tilfallandi efni meðal annars úr rekaviði eins og í þessu tilviki.
Birgitta Spur