Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 17.09.2024
Partons, la mer est belle
Tólf akadísk þjóðlög,
útsett af Carl Philippe Gionet
Christina Raphaëlle Haldane sópran
Carl Philippe Gionet píanó
Tónleikar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Sunnudaginn 6. október 2024 klukkan 20:00
Akadíanar (Franska: Acadiens) nefnast franskir innflytjendur og afkomendur þeirra sem settust að við austurströnd Kanada, í þá nefndri Akadíu, á 17. og 18. öld. Menning þeirra er enn þann dag í dag rík af tónlist og frásagnarhefð og bera Tólf akadísk þjóðlög þess verðugt vitni. Þær útsetningar sem hér verða fluttar flétta saman gamla og nýja tíma og eru afrakstur langs og ítarlegs samstarfs píanóleikarans, rithöfundarins og listmálarans Carl Philippe Gionet og sópransöngkonunnar Christina Raphaėlle Haldane. Þær eru samdar fyrir rödd Christinu, og í anda fagurfræði nítjándu aldar ljóðasöngs, eða franskrar melódíu, þar sem söngrödd og píanó leika jöfn hlutverk.
Þjóðlög þessi hafa borist frá kynslóð til kynslóðar og valdi Carl til umritunar þau lög sem hann hafði lært af fullorðnum í æsku og bundin voru í hugskoti hans. Í útsetningum sínum var hann þeim trúr en leyfði sér nokkurt frelsi með textana, sleppti úr, breytti röð og skóp endurtekningar, allt til að auka dramatísk áhrif þeirra. Textarnir eru margslungnir, frá ýmsum tímum, löndum og þjóðfélagsstéttum og fjalla um ást og skilnað, hetjudáðir og klaufaskap og einfaldlega hvernig á að skilja heiminn.
Carl Philippe Gionet er eftirsóttur einleikari og meðleikari, en ekki síður sem leiðbeinandi og kennari víða um Kanada og Evrópu. Hann lauk doktorsprófi í píanóleik við Université de Montréal undir leiðsögn Paul Stewart og hefur hlotið sérhæfða þjálfun í meðleik í Austurríki og Englandi. Hann hefur lagt sig sérstaklega eftir menningararfleifð Akadíana og árið 2013 stofnaði hann Musique sur mer en Acadie sem helgar sig miðlun klassískrar tónlistar meðal franska minnihlutans í Kanada. Síðan 2014 hefur hann verið leiðbeinandi við Breno Italy International Music Academy og Centre for Opera Studies and Appreciation í Kanada.
Auk tónlistarinnar stundar Carl bæði myndlist og ritsmíðar. Hann hefur haldið sýningar á verkum sínum beggja vegna Atlantshafsins og nú stendur sýningin Laugarneshughrif í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Fyrir bók sína Icare (Icarus), sem hann einnig myndskreytti, hlaut hann tilnefningu til Kanadísku Prix Antonine-Maillet − Acadie Vie verðlaunanna.
Christina Raphaëlle Haldane hefur komið fram á tónleikum og sungið óperur víða um Evrópu, Norður Ameríku og Asíu. Má þar nefna Finnsku þjóðaróperuna, Konunglegu óperuna Covent Garden, Skosku óperuna og Musica Viva Hong Kong. Þar hefur hún sungið mörg af þekktustu aðalhlutverkum óperunnar, en hennar sérsvið eru kvenhetjur Händels, kómísk bel canto hlutverk og samtímaóperur. Fremstu hljómsveitir hafa boðið henni að syngja með sér og hún nýtur þess að syngja á einleiks- og kammertónleikum. Mörg samtíma tónskáld hafa boðið henni til samstarfs við sig og hefur það orðið til að koma söngverkum þeirra á svið.Fyrsti geisladiskur Christinu ...let me explain hlaut mikið lof gagnrýnenda, en þar mátti heyra safn kanadískra laga, þjóðlög, djass og framúrstefnutónlist. Árið 2020 var hún aðallistamaður ICARE, í samstarfi við CBC/ Radio Canada og Carl Philippe Gionet.
Christina er ástríðufullur kennari og almennur leiðbeinandi og hefur kennt á námskeiðum, t.d. í Breno á Ítalíu og á árunum 2019 til 2022 var hún fastráðin við Dalhousie háskólann í Halifax, en gekk þá til liðs við Mount Allison háskólann í Sackville NB.
Carl og Christina eru frændsystkyni af frönskum ættum - Akadianar - og tala jöfnum höndum frönsku og ensku. Árið 2022 gaf Leaf music og Naxos út geisladiskinn TU ME VOYAIS með flutningi þeirra, þar á meðal þeim Tólf akadískum þjóðlögum sem flutt verða á þessum tóleikum.
Efnisskrá | |
Carl Philippe Gionet b. 1979 |
Douze chansons folkloriques acadiennes
L'escaouette
Le rosier blanc
Le jardinier du couvent
Wing tra la
Au chant de l'alouette
Écrivez-moi
L'étoile du nord
Le pommier doux
La belle Françoise
Tout passe
Le prince Eugène
Partons, la mer est belle
|
|