Hjól - Plógur - Vængir



Grein Jóns Proppé í sýningarskrá sem gefin er út í tilefni sýningarinnar:

Verk Hallsteins Sigurðssonar eru nokkuð sér á parti í jurtagarði íslenskrar höggmyndalistar þar sem þó er allfjölbreytt flóra. Höggmyndir Hallsteins unnar í málm eru opnar og léttar í efni og formi. Það má segja að hann teikni fram rýmið og hann notar gjarnan til þess létta teina og málmplötur sem hann sýður saman en hefur eins mikið loft og innra rými og hægt er. Formbyggingin er naum og rétt nægileg til að ná tilgangi sínum en að því leyti mætti kalla verkin eins konar minimalisma, sér í lagi verkin þar sem endutekin eða hnígandi form draga athyglina að rúmfræði byggingarinnar. Hallsteinn er trúr sínum efnivið, notar járn og stundum ál, en hins vegar dregur hann ávallt úr vægi efnisins, öfugt við það sem nú tíðkast iðulega, og sækist frekar eftir gegnsæi svo innri bygging verkanna verði sýnileg. Þessi áhersla á formbyggingu og léttleiki verkanna valda því að þau virðast hljóðlát samanborið við mikið af höggmyndalist samtímans þar sem lagt er upp úr því að fanga örugglega athygli áhorfandans.

Aðferð Hallsteins og nálgun eru engu að síður kyrfilega grunduð í listsögulegu samhengi og ígrunduð útfrá velskilgreindum fagurfræðilegum forsendum. Hann lærði höggmyndalist í tíu ár frá 1962 til 1972 og sótti alls fimm listaskóla, fyrst hér heima og síðan í Lundúnum. Á fyrstu árum sjöunda áratugarins voru að vísu ekki svo margir myndhöggvarar að störfum á Íslandi en nokkrir þó sem verulega kvað að og glímdu við listina af ekki minni snilld og frumleika en samtímamenn annars staðar. Menn fylgdust með því sem verið var að sýsla erlendis og það var því varla tilviljun þegar Hallsteinn fór utan til framhaldsnáms að Lundúnir urðu fyrir valinu.

Á sjöunda áratugnum fóru að koma undarlegir brestir í módernismann sem náð hafði í höggmyndalistinni undraverðri fágun og jafnvægi. Nú var eins og skildu leiðir milli ýmissa þeirra sjónarmiða sem listamenn hámódernismans –– Henry Moore, Julio González, Le Corbusier, o.fl. - höfðu reynt að sætta og upphefja í form- og efnisfræði sinni. Sumir vildu naumari framsetningu, aðrir kusu handahófsvalið efni og voru opnir fyrir öllu og enn aðrir leituðust við að halda formfræðinni en beita henni til að opna listaverkið fyrir umhverfi sínu og gera það um leið virkara í rými áhorfandans. Í þessu fólst meðal annars –– bæði bókstaflega og táknrænt lesið –– að taka höggmyndina ofan af stalli sínum.

Sá sem oftast er nefndur fyrir þessari demóteringu höggmyndarinnar er Sir Anthony Caro (f. 1924) þótt fleiri hafi þar auðvitað átt hlut að máli og nú bar svo við að á Bretlandi spruttu fram fjölskrúðugustu kvistir á þessari rótgrónustu grein myndlistanna. Caro hafði verið aðstoðarmaður Henry Moore um skeið en með sýningu sinni í Whitechapel Gallery árið 1963 bylti hann hugmyndum margra um hvert höggmyndalistinni bæri að stefna. Hann varð einn helsti framvörður nýrrar kynslóðar myndhöggvara sem voru kallaðir blátt áfram "the New Generation sculptors". Það varðaði þó ekki minna um áhrif Caros á nemendur sína þar sem hann kenndi við St Martin's School of Art í Lundúnum frá 1953 til 1979. Meðal nemenda hans þar voru Gilbert og George, Barry Flanagan, Bruce McLean, John Hillard, Richard Long og Hamish Fulton –– allir þjóðþekktir listamenn í heimalandi sínu og framsæknir hugmyndasmiðir hver á sinn hátt.

Hallsteinn Sigurðsson kom til Lundúna árið 1966 –– sama ár og Richard Long –– til að sækja sér framhaldsnám eftir að hafa lært í Myndlistarskóla Reykjavíkur 1962-1966 og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1963-1966. Í Lundúnum endaði hann líka í St Martin's College of Art eftir að hafa verið í Hornsey College of Art og Hammersmith College of Art fyrstu þrjú árin. Hann bjó á Englandi til 1972.

Hallsteinn var auðvitað ekki alveg grænn þegar hann kom í stórborgina því hér heima höfðu fremstu myndhöggvarar þróað list sína með hliðstæðum hætti, þau Ásmundur Sveinsson, Sigurjón Ólafsson, Gerður Helgadóttir og fleiri. Einkum má ætla að Hallsteinn hafi notið Ásmundar, föðurbróður síns, sem hafði hugmyndir um formræna opnun listaverksins og rýmisfang nokkuð hliðstæðar við það sem Caro og félagar hans iðkuðu. Sigurjón var farinn að vinna í fundið efni ýmiss konar og fleira nýstárlegt hafði sést á Íslandi þau ár sem Hallsteinn nam heima. Það fer ekki á milli mála að fordæmi Ásmundar hefur verkað sterkt á hann, svo og handleiðsla Ragnars Kjartanssonar, einkum í einbeittri formleitinni og hógværð hans gagnvart vinnunni og viðfangsefni sínu.

Engu að síður er það ljóst, sérstaklega nú þegar liðið er á fjórða áratug síðan Hallsteinn sneri aftur úr námi og verk hans orðið ansi mikið, að námstíminn á Englandi hefur átt mikinn þátt í að fága list og viðhorf hans. Samt er eins og margt af því hafi ekki komið fram strax eftir að hann kom heim aftur heldur frekar vaxið fram smátt og smátt eftir því sem vinnu Hallsteins vatt fram og honum óx fiskur um hrygg. Verkin hafa smátt og smátt orðið léttari, bæði járnverkin og þau sem hann vinnur í ál, þótt þau síðarnefndu séu alla jafnan efnismeiri. Á áttunda áratugnum og framan af þeim níunda báru sum verkin sterkan keim af steinhöggi þótt þau væru unnin í málm; þau virtust eins og numin eða skorin úr föstu efninu, eins þótt formin væru opin og teygð utan um rýmið. Með sýningu á Kjarvalsstöðum 1988 tefldi Hallsteinn hins vegar fram nýrri og skarpari sýn með verkum í járnteina og -plötur. Það var um það talað í umsögn Morgunblaðsins hve sýningin væri heilleg og athyglisverð og sagt að Hallsteinn væri "nú mun öruggari í formum en áður og um leið hnitmiðaðri í vinnubrögðum" auk þess sem verkin væru lífrænni í útfærslu. Það var öllum ljóst að hér hafði Hallsteinn náð þeim eftirsóknarverða punkti í listsköpun sinni þegar form og efni, hreyfing og inntak, ná að syngja saman einum sterkum hljómi. Myndirnar eru léttar og líkt og svífa í fullkomnu jafnvægi í rýminu þótt þær standi á gólfi. Þær eru þó langt í frá einfaldar; allt vitnar um handbragð hámenntaðs manns og gríðarlega agaða formsýn. Hreyfingin og hrynjandin í formunum er leikandi en hárnákvæm. Verkin voru líka afstrakt og geómetrísk en eldri álverkin höfðu margar haft tilvísun í manneskjur eða hluti þótt tilvísunin hafi verið teygð og losað um hana að mestu.

Verk Hallsteins hefur síðan verið sífelld framþróun og úrvinnsla þessara formpælinga. Eftir hann liggja nú myndir á söfnum og útilistaverk á almannafæri, hann hefur haldið á annan tug einkasýninga, tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og verið virkur í starfi myndlistarmanna, einkum í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík sem hann stofnaði ásamt þeim Jóni Gunnari Árnasyni, Ragnari Kjartanssyni, Þorbjörgu Pálsdóttur og fleirum árið 1972. Þá má ekki gleyma höggmyndagarðinum sem Hallsteinn hefur komið upp í Gufunesi þar sem sjá má um tuttugu og fimm verk frá honum í ýmsum stærðum og frá ýmsum tímum.

Framþróunin í list Hallsteins hefur ekki verið minni eftir Kjarvalsstaðasýninguna 1988 en fram að þeim tíma. Umfram allt sprettur það af þrotlausri vinnu og umsýslu við myndirnar svo verkið leikur í þjálfaðri hendi listamannsins, formin spretta fram á vinnustofu hans. Smátt og smátt hefur hann líka tekið fyrirmyndir aftur inn í verkin en nú á formrænni forsendum en áður. Gott dæmi um það eru verkin Vængir á þessari sýningu í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þar sem Hallsteinn spinnur saman útlínur af fuglsvængjum í hrynjandi þríðvíð form sem svífa og snúast hangandi úr lofti. Verkin Hjól eru stúdíur um hringformið sem er auðvitað hreint afstrakt en þau fjalla líka um hringhreyfingu í náttúrunni og eru hluti af umfangsmikilli rannsókn Hallsteins í tengslum við útilistaverkið sem nú stendur við lækinn í Hafnarfirði og er minnismerki um fyrstu rafveituna sem sett var upp þar nærri. Loks er plógurinn til enn frekari staðfestingar á því að Hallsteinn veigrar sér ekki við að leita nú hreinna fyrirmynda og hefur öryggi og vald til að fella þær hnökralaust að mynd- og formhugsun sinni.

Jón Proppé