Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar 05.12.25
Allt frá hatti oní skó
Einar Már Guðmundsson og Birgir Thor Møller
ræða um nýútkomna skáldsögu Einars,
Allt frá hatti oní skó, í Listasafni
Sigurjóns Ólafssonar fimmtudagskvöldið
11. desember kl. 20:00
Í þessari nýjustu skáldsögu Einars Más
heldur aðalpersónan, Haraldur, til Kaupmannahafnar í
þeim tilgangi að verða skáld. Þetta er haustið 1979
og á vegi hans þar verða ótal skrautlegar persónur,
hann kynnist nýjum viðhorfum, skáldskap og
tónlist − umleikið óróa níunda
áratugarins, þegar allt breyttist.
Einar Már Guðmundsson er einn af okkar
þekktustu rithöfundum og hér birtir hann sögu
sem dansar á mörkum eigin minninga og skáldskapar
− úr ólgandi suðupotti sköpunar og
lífsgleði. Á þessari kvöldstund í Listasafni
Sigurjóns mun hann lesa upp úr bókinni og ræða við
Birgi Thor Møller − með þátttöku gesta −
um hana og efni hennar.
Einar og Birgir hafa oft hist áður opinberlega og rætt
bækur Einars, en þetta er í fyrsta sinn sem þeir gera
það hér á landi.
Birgir Thor Møller
hefur búið í Danmörku síðan 1983 og starfar
nú sem dagskrárstjóri í lista- og
menningarhúsinu Nordatlantens Brygge í
Kaupmannahöfn. Þar stjórnar hann einnig hinni
árlegu kvikmyndahátíð Nordatlantiske
Filmdage ásamt öllum bókmenntaviðburðum
hússins.
Heitt verður á könnunni í kaffistofu listasafnsins og gestir
geta skoðað portrettsýningu Sigurjóns, Augliti til
auglitis, og kynnst færni hans við að túlka ólíka
persónuleika. Sigurjón var tvímælalaust
andríkasti og næmasti skapari portrettmynda sem við
Íslendingar höfum átt segir Aðalsteinn
Ingólfsson í
sýningarskrá.
Aðgangseyrir er 1.000 krónur, greitt við innganginn.
Tekið er við öllum helstu greiðslukortum.
Höfundurinn verður með bókina til sölu eftir umræðurnar.
|
|
|
|