Ávarp Birgittu Spur við opnun sýningarinnar STERLING STUFF 5. apríl 2003

 

Your Excellency, Mr. John Culver, dear guests from England, ráðuneytisstjóri Guðmundur Árnason og aðrir gestir.

Það er afar mikilvægt fyrir myndhöggvara að hafa aðgang að framúrskarandi fagfólki þegar kemur að því að færa höggmynd yfir í varanlegt efni. Fyrir Listasafn Sigurjóns hefur það verið mikið lán að komast í kynni við Rungwe Kingdon og fyrirtæki hans Pangolin Editions þar sem fagmennska er á mjög háu stigi. Þegar ég heimsótti Rungwe og malmsteypuna hans fyrir tveimur árum síðan varð mér ljóst að hér væru fagmenn að verki sem Sigurjóni heitnum Ólafssyni hefði verið að skapi.

Þegar Rungwe var staddur hér i fyrra sumar til að vinna verkefni fyrir safnið sagði hann mér frá sýningu, sem væri í undirbúningi hjá Pangolin og það var fastmælum bundið að sýningin kæmi í Listasafn Sigurjóns þegar hún hafði verið sýnd í Gallerí Pangolin en héðan fer hún í Konunglega Listakademíuna í London.

Forsaga sýningarinnar er sú að Rungwe bað fimmtíu og einn þekktan listamann um að vinna hver sitt verk sem steypa mætti í silfur og mátti það hvergi vera stærra um sig en 15 semtímetrar. Hér verða því tækifæri til að sjá verk eftir helstu núlifandi myndhöggvara Bretlands ásamt verkum eftir íslendingana Pétur Bjarnason og Jóhönnu Þórðardóttur en þar að auki verk eftir Sigurjón sem var valið til steypu í silfur fyrir sýninguna.

Á síðari árum hefur verið tilhneiging til að kenna allt við "skúlptúr", þrátt fyrir að upphaflega hafi orðið merkt hlut sem skorinn var út eða höggvin í stein. Slíkir hlutir stórir eða smáir, hafa ætið haft ómælda þýðingu fyrir áhorfendur, hvort sem það hafa verið risastyttur goðum og höfðingjum til dýrðar, eða örsmáir gripir sem rúmast í lófa manns. Á þessari sýningu má ganga úr skugga um að stórbrotin og margslungin verk þurfa ekki að vera stór í sniðum, lítil verk geta haft öll þau einkenni sem gera listaverk mónúmental í formi og hlutföllum. Rungwe Kingdon kemst þannig að orði:" Sjáum bara Venus frá Willendorf; hún er örsmá, en hefur þó aðdráttarafl sem ekki hefur dvínað á þeim 30.000 árum frá því hún var sköpuð."

Listasafni Sigurjóns Ólafssonar er það mikill heiður og ánægja að geta efnt til þessarar sýningar. Það má líkja sýningunni við fund listamanna við sérfræðingana í málmsteypunni - og það sem er mest um vert er, að hér gefur að líta verk íslenskra listamanna í samspili við erlend verk, og öll bera þau sterk og sannfærandi einkenni höfunda sinna.

Fyrir hönd safnsins þakka ég þeim sem hafa styrkt sýninguna, sendiherra Bretlands Mr. John Culver, Sjóvá Álmennum Tryggingum, Kaupþing Banka og Eimskip. Special thanks to Rungwe Kingdon and his wife Claude Koenig, Jane Buck from Gallery Pangolin and the artists.

Næst tekur til máls ráðuneytisstjóri Guðmundur Árnason sem mun opna sýninguna í forföllum menntamálaráðherra Tómasar Inga Olrich.

 

Birgitta Spur