Fréttatilkynning:

Sumartónleikar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar 2008

Opnunartónleikar þriðjudaginn 8. júlí 2008 kl. 20:30

„Ungverskir dansar og rómantík“, Freyja Gunnlaugsdóttir klarínett og Siiri Schütz píanó


Þann 8. júlí næstkomandi verða fyrstu tónleikar sumarsins í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.  Á tónleikunum leika Freyja Gunnlaugsdóttir klarínett og þýski píanóleikarinn Siiri Schütz ungverska dansa og rómantík, ásamt því sem myndbandsverk eftir Þorbjörgu Jónsdóttur fléttast inn í tónlistina.  Tónleikarnir eru fyrstir í röð níu tónleika sem verða í safninu á hverju þriðjudagskvöldi fram í september.

Freyja Gunnlaugsdóttir klarínettuleikari hefur starfað mikið með hljómsveitum og kammerhópum á Íslandi og í Evrópu. Sem einleikari hefur hún frumflutt fjöldan allan af einleiksverkum fyrir klarínettu, meðal annars eftir Konstantia Gourzi, Alessandro Solbiati og Atla Heimi Sveinsson. Freyja hefur einnig unnið með myndlistarmönnum á borð við Bruce Nauman, Pipilotti Rist og Alexander Polzin.

Glæsilegur tónleikaferill þýska píanóleikarans Siiri Schütz hófst þegar hún 16 ára að aldri þreytti frumraun sína sem einleikari með Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Claudio Abbado. Sama ár hljóp hún í skarðið fyrir Claudio Arrau og Murray Perahia á einleikstónleikum í Fílharmóníunni í Köln og Tonhalle í Düsseldorf og hlutu þeir tónleikar einróma lof gagnrýnenda. Síðan þá hefur hún komið fram sem einleikari með mörgum helstu hljómsveitum Evrópu. 

Um safnið og tónleikaröðina:

Í ár eru liðin 20 ár frá því að Listasafn Sigurjóns Ólafssonar opnaði fyrir almenning og í haust verða 100 ár liðin frá fæðingu listamannsins sjálfs. Vikulegir sumartónleikar hafa verið hluti af starfi safnsins frá upphafi og unnu þeir sér strax sess meðal tónlistarunnenda og flytjenda. Aðalsalur safnsins, þar sem tónleikarnir fara fram, er fyrrverandi vinnustofa myndhöggvarans, og samspil myndverkanna í salnum og náttúrunnar í kring gæða tónlistarflutninginn nýrri vídd. Fyrir utan vandaða, fjölbreytta tónlist einkennir það tónleikana að vera fremur stuttir. Þeir hefjast klukkan 20:30 og standa í um klukkustund sem hentar flestum á löngum sumarkvöldum. Eftir tónleika þykir flytjendum og gestum afar notalegt að njóta veitinga í kaffistofu safnsins fyrir opnu hafinu og síðbúnu sólarlagi. Ásókn er mikil meðal tónlistarfólks að fá að leika á tónleikunum og í ár sóttu þrefalt fleiri um en hægt var að sinna. 


 

Hægt er að hafa samband við Freyju Gunnlaugsdóttir s. 561-2146 vegna viðtals og myndatöku.
 
Prenthæfa ljósmynd af tónlistarfólkinu er að finna hér  http://www.lso.is/tonl/08-07-08-FrSi.jpg
 

 
Ábyrgðarmaður fréttatilkynningar:
Steinunn Þórhallsdóttir
Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Sími 553 2906
www.lso.is