Saltfiskstöflun, 1934 - 1935

Árið 1934, á meðan Sigurjón var nemandi við Listakademíið í Kaupmannahöfn, hlaut hann styrk frá dönskum sjóði að upphæð 1300 krónur. Hann langaði til að vinna stórt verkefni og ákvað að nota styrkinn til að gera „mónument“ yfir íslenska saltfiskinn og konurnar sem unnu við fiskverkun. Hann gerði sér grein fyrir að ekki þýddi að bíða eftir að honum yrði falið svo stórt verkefni, heldur yrði hann að skapa verkefnið sjálfur.
    Sigurjón mótaði myndina í fullri stærð, fjögurra metra háa og þriggja metra breiða, og notaði til þess 7 tonn af leir. Hann steypti hana síðan sjálfur gifs til þess að spara kostnað gifssteypara. Sú afsteypa var sýnd á nokkrum opinberum listsýningum í Danmörku 1935 og 1936 og hlaut gríðarlega athygli og voru flestir gagnrýnendur frá sér numdir af hrifningu.
    Myndflöturinn er felldur inn í eins konar ramma og honum skipt í tvo jafna, efri og neðri, hluta. Fjórar konur eru á hvorum fleti, klæddar grófum hlífðarfötum, og eru þær að vinna að saltfiskþurrkun. Formin eru mjög einföld og stórskorin, en hreyfingar fígúranna skapa líf í fletinum. Þrátt fyrir hina miklu einföldun í formunum eru mörg smáatriði sem gera persónurnar mannlegar og viðkvæmar, til dæmis fótastöður og fellingar í fötum kvennanna og í hári.
    Myndefnið sem tengdist undirstöðu atvinnugrein Íslendinga þess tíma segir okkur að Sigurjón hafi frá upphafi hugsað myndina staðsetta á Íslandi. Hann hafði reyndar vonast til að finna húsvegg í Reykjavík fyrir myndina, til dæmis á framhlið hins nýja húss Fiskifélags Íslands á horni Ingólfsstrætis og Skúlagötu, sem þá var verið að reisa, eða í Sjómannaskólanum - sem nú er nefndur Fjöltækniskóli Íslands. Svo fór þó ekki, en íslenska ríkið keypti myndina árið 1945 og ári síðar var hún steypt í steinsteypu. Hún var þó ekki reist fyrr en árið 1953, og þá frítt standandi á melnum við Háteigsveg. Sólveig Georgsdóttir kallar hana „veggmynd án veggjar“ í grein sem hún ritar um Saltfiskstöflun í Árbók LSÓ 1991-1992.