|
Steinn Steinarr LSÓ1137 Sumarið 1955 dvaldi Sigurjón hjá tengdaföður sínum á prestssetri á Fjóni í Danmörku. Þar fann hann í garðhleðslu þennan graníthnullung, sem hefur borist með ísaldarjöklinum frá Svíþjóð, og hjó út Reifabarn, sem hvílir efst á steininum. Hann mótaði fyrir böndum sem ná utan um steininn, en lét hann að öðru leyti halda upprunalegu formi. Hér gefur að líta umkomulaust barn í fagurri nekt sinni, áfast belglaga steininum - eða móðurkviði - með táknrænan streng sem tengsl milli móður og barns. Ragnar í Smára keypti verkið sumarið 1958 og tengdi það nafni Steins Steinarr, sem þá var nýlega látinn. Hann upplifði verkið eins og bókmenntir og las það þannig: barn úr steini − steinn af steini − Steinn Steinarr. Verkið er hluti af stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ. Birgitta Spur
|