Hermes, LSÓ 1258, 168, 252 og 1274

Hermes sést fyrst hjá Sigurjóni árið 1970 og þá sem hluti af lágmynd í tré. Ári síðar vann hann þrjár sjálfstæðar lágmyndir af Hermes, einn gifsskjöld um 40 cm í þvermál, aðra mjög litla, einfaldaða og án bakgrunns. Sú þriðja og stærsta var hluti af lág­mynda­röð sem Sigurjóni var falið að gera á Sundaborg, skrifstofu­húsnæði og vöru­skemm­ur, sem samtök heild­sala reistu nálægt Sunda­höfn í Reykja­vík.

    Sjálft mótífið er eins á öllum þess­um myndum þótt útfærslan sé eilítið mismunandi. Hermes er tvífætt fígúra með arma og höfuð sem endar í nefi, gogg - eða ef til vill hornum. Á baki fígúrunnar er form sem minnir á segl eða vængi. Fætur virðast vera hvor með sínu sniði, annar gæti verið með hóf en hinn með klaufum. Það er mikill hraði í myndinni og þrátt fyrir að fígúran sé afstrakt eru margir þættir sem koma kunnug­lega fyrir sjónir.

    Sigurjóni var tíðrætt um að á hús heildsala hæfði að setja lágmynd af gríska goðinu Hermes, sem meðal annars var goð kaupmanna. Hermes var hugvitsamur og snöggur. Sögnin segir hann hafa smíðað fyrstu lýruna og á vængjuðum stíg­vélunum var hann fljótur í ferðum, enda sendiboði guðanna. Hann var goð hirðingja og hjarða og einnig þjófa, en í hirðingja­samfélagi Grikkja til forna þótti það ekki mjög vítavert að stela geit eða sauði. Stundum gleymist að eitt veiga­mesta hlutverk Hermesar var að hann var kærleiksríkur og traustur fylgdar­sveinn mannsins í hinstu ferð hans til heima Hadesar. Hermes var jafnframt fulltrúi framliðinna meðal lif­enda.