Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar

Kristján Jóhannes­son bassabaritón og Cole Knutson píanó­leik­ari flytja Svanasöng eftir Franz Schubert í Lista­safni Sigur­jóns Ólafs­son­ar þriðju­dags­kvöldið 11. apríl 2023 kl. 20:00


Tobias Haslinger, út­gef­andi verka Schub­erts, gaf út safn síð­ustu söng­laga hans, eftir að hann lést, undir nafn­inu Svana­söngur. Þar vitn­ar hann trú­lega til þeirr­ar sögu­sagn­ar að feg­ursti söng­ur svans­ins sé rétt áður en hann deyr. Ólíkt öðrum ljóða­fl0kk­um Schub­erts, t.d. Malara­stúlk­unni fögru og Vetrar­ferð­inni eru fleiri en einn höfund­ur að ljóð­un­um. Sjö fyrstu lögin í út­gáfu Haslingers eru sam­in við ljóð Lud­wig Rell­stab, síðan koma sex lög við texta eftir Hein­rich Heine og að lokum eitt lag við texta eftir Jo­hann Gabr­iel Seidl, sem teng­ist á eng­an hátt fyrri verk­un­um og hef­ur verið ákvörð­un út­gef­anda að bæta því þar við. Einn­ig er senni­legt að út­gef­andi hafi ráð­ið röð ljóð­anna í heftinu.
    Vit­að er að Schub­ert bauð öðr­um að gefa Heine hlut­ann út sér­stak­lega, sem bend­ir til þess að hann hafi ekki litið á öll þessi verk sem einn ljóðaflokk.

 Ljóð eftir Ludwig Rellstab
1LiebesbotschaftÁstarkveðja
2Kriegers AhnungHugboð hermannsins
3FrühlingssehnsuchtVorþrá
4StändchenMansöngur
5AufenthaltHvíld
6In der FerneÍ fjarlægð
7AbschiedKveðja
 Ljóð eftir Heinrich Heine
8Der AtlasAtlas
9Ihr BildMyndin hennar
10Das FischermädchenFiskistúlkan
11Die StadtBorgin
12Am MeerVið hafið
13Der DoppelgängerTvífarinn
 Ljóð eftir Johann Gabriel Seidl
14Die TaubenpostBréfdúfupósturinn
Kristján Jóhannesson fædd­ist í Reykja­vík árið 1992, en á ættir að rekja til Ön­undar­fjarð­ar. Hann hóf sön­gnám við Söng­skóla Sig­urð­ar Dem­etz árið 2008. Kenn­arar hans þar voru Sig­rún Hjálm­týs­dótt­ir, Krist­ján Jó­hanns­son og Keith Reed. Árið 2014 flutt­ist hann til Vínar­borg­ar til fram­halds­náms við Kon­serva­torí­ið þar í borg hjá Uta Schwabe. Á náms­ár­un­um söng Krist­ján m.a. í óper­um Moz­arts með Sumar­aka­dem­íu Vín­ar­fíl­harm­ón­í­unn­ar, titil­hlut­verk­ið í Don Gio­vanni með Israel Chamber Or­ches­tra í Tel Aviv, í upp­færsl­um Neue Oper Wien, I Puri­tani eftir Vin­cenzo Bellini í Hofi á Akur­eyri með Sin­fón­íu­hljóm­sveit Norður­lands og hlut­verk Nauta­ban­ans í Carmen eftir Georges Bizet hjá Ís­lensku Óper­unni.
    Árið 2017 hóf hann störf við Theat­er an der Wien og Kammer­oper í Vínar­borg. Af helstu verk­efn­um hans þar má nefna Trist­an og Ís­oldi og Nifl­unga­hring Wagn­ers, Salome eftir Rich­ard Strauss, Don Carlos eftir Gius­eppe Verdi, Faust eftir Gounod og Meyna frá Orl­eans eftir Tchai­kovsky. Einn­ig var hann feng­inn í íhlaup fyrir hinn valin­kunna bari­tón­söngv­ara Christ­ian Ger­haher í upp­færslu Theat­er an der Wien á Elias eftir Felix Mendels­sohn. Krist­ján flutt­ist til St. Gall­en í Sviss árið 2021, og syngur við óperuna þar. Hann hef­ur verið við­rið­inn tón­listar­hátíð­ina í Aix-en-Provence sem gesta­söngv­ari og verð­ur það aftur í sumar. Hann hef­ur sótt master­klassa hjá Thom­as Hamp­son, Ang­elika Kirch­schlag­er og Adrian Eröd. Krist­ján tók þátt í ljóða­söngs­nám­skeiði Franz Schub­ert Inst­itut Baden bei Wien í Austur­ríki 2017-2018 þar sem þeir Cole kynnt­ust, og þar sem þeir unnu með lista­mönn­um á borð við Íslands­vin­ina Elly Amel­ing og Andr­eas Schmidt, einnig með Robert Holl, Helmut Deutsch, Julius Drake, Wolfram Rieger og Roger Vignoles.


Cole Knutson er uppal­inn í North Battle­ford, Sask­atchew­an í Kan­ada þar sem hann lagði stund á píanó­leik frá 12 ára aldri og lauk há­skóla­prófi í saxó­fón­leik. Hann hlaut meistara­gráðu í með­leik frá Guild­hall School of Music and Drama í Lundún­um, hvar hann lærði hjá Julius Drake og Eugene Asti, og lék með nem­end­um Yvonne Kenny og Rudolf Piernay. Cole starf­aði einn­ig sem með­leik­ari við skól­ann með­fram nám­inu.
    Frá og með síð­asta hausti hlýtur hann leið­sögn við Lied­zentr­um Lied­aka­demie í sam­starfi við Heidel­berg­er Früh­ling og Pierre Boulez Saal í Berlín, hvers stjórn­andi er baritón­söngv­ar­inn Thomas Hamp­son. Einnig var Cole hluti af Song­Studio í Carnegie Hall sem sópran­söng­kon­an Renée Flem­ing leiðir. Hann tekur þátt í Académie Orsay-­Royau­mont í Frakk­landi á næsta ári. Hann hefur komið fram í Carn­egie Hall, á Schubert­vik­unni í Pierre Boulez Saal, Wigmore Hall í Lund­ún­um og Salle Cortot í París. Enn­fremur við The Oxford Lied­er Festi­val, Salle Bourgie í Montr­éal, LSO St. Luke’s og víðar á Bret­lands­eyjum, í Þýska­landi, Sviss, Frakk­landi, Austur­ríki og Norð­ur-Amer­íku.
    Cole hefur m.a. hlotið verð­laun frá Katten­burg Con­cours de Voix í Laus­anne í Sviss, Kath­leen Ferrier Awards í Wig­more Hall, Con­cours Mus­ical Inter­nation­al de Montr­éal, Inter­nation­al Mozart Com­petit­ion, London Song Festival Com­petit­ion, English Song Prize við Guild­hall School of Music & Drama og Ox­ford Lieder Young Art­ist Plat­form. Hann er styrk­þegi Sylva Gelber Music Found­at­ion, Métis Nat­ions Saskatch­ewan, Gabr­iel Dumont Institute, SK Arts, Guildhall Trust og Art Song Foundat­ion of Can­ada. Cole tók þátt í Franz Schubert Institut í Baden bei Wien í Austur­ríki árin 2017 og 2018. Sem saxó­fón­leik­ari hefur Cole hlotið verðlaun frá Nat­ional Music Fest­ival of Can­ada eftir frum­raun sína í Carn­egie Hall ein­ungis tví­tug­ur að aldri, hann var einnig aðal­saxó­fón­leik­ari National Youth Band of Canada.
Aðgangseyrir er 2000 krónur og greitt er við inn­ganginn. Tek­ið er við öll­um helstu greiðslu­kortum.
Hér má nálgast vetrar og vordagskrá í Listasafn Sigurjóns
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar • Laugarnestanga 70 • 105 Reykjavík • sími 553−2906 • LSO(at)LSO.is