Fréttatilkynning frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 17.04.24Ítalski píanóleikarinn Sebastiano Brusco leik­ur á næstu tón­leik­um Lista­safns Sigur­jóns Ólafs­son­ar, þriðju­dag­inn 23. apríl 2024 klukk­an 20:00. Sebasti­ano, sem er Ís­lend­ing­um að góðu kunn­ur, leik­ur perlur úr heimi klass­ísku tón­list­ar­inn­ar, Són­ötu núm­er 12 eftir Moz­art, Drei Klavier­stücke eftir Schu­bert og þrjú af píanó­verk­um Chop­ins.


Sebastiano Brusco er fædd­ur í Róm og heill­að­ist ung­ur að tón­list. Hann nam hjá Val­ent­ino Di Bella − sem segja má að hafi upp­götv­að hæfi­leika hans − við Fran­cesco Morlac­chi Tón­listar­háskól­ann Perugia í Umbria og út­skrif­að­ist það­an með á­gætis­einkunn. Hann sótti nám­skeið hjá ýms­um þekkt­um ítölsk­um píanó­leik­ur­um og þriggja ára nám hans hjá Ennio Past­or­ino við Tón­listar­akademí­una í Umbria á Ítalíu mót­aði mjög tón­stíl hans. Það­an út­skrif­að­ist hann með besta vitnis­burð. Se­basti­ano hefur unn­ið til fjölda verð­launa fyrir píanó­leik sinn, þar á með­al fyrstu verð­laun bæði í Carlo Soliva Inter­nati­onal Com­pe­tit­ion og Gubbio Festi­val Inter­nat­ion­al Com­pe­tit­ion.

    Sebast­iano hefur hald­ið tón­leika í Kan­ada, Banda­ríkj­un­um, Mexíkó, Spáni, Frakk­landi, Þýska­landi, Rúm­en­íu, Pól­landi, Tyrk­landi og ara­bísku fursta­dæm­un­um og á ár­un­um 2019 − 2023 fór hann þrisv­ar í tón­leika­ferð­ir til Kína og lék þá í Shang­hai, Hong Kong, Guangz­hou, Huang­shan, Hang­zhou, Nan­jing og Pek­ing. Hér nær okkur hef­ur hann leik­ið á Grieg há­tíð­inni í Nor­egi og nokkr­um sinn­um hér á landi, með­al ann­ars á Sumar­tónleik­um LSÓ og Myrk­um Músík­dögum. Hann hefur starf­­að með þekkt­­um hljóð­færa­leik­ur­um á borð við Vadim Brodsky fiðlul­eik­ara, leik­ið með hljóm­sveit­um og kammer­sveit­um eins og Bern­ini kvart­ett­in­um, I Solisti Veneti í Fen­eyjum og Sin­fón­íu­hljóm­sveit­inni í Míl­anó, með stjórn­end­um eins og Ric­cardo Chailly, Rom­ano Gand­olfi og Claudio Scim­one. Ú­tgáf­urn­ar Phoen­ix Clas­sics, Da Vinci Rec­ords, AULI­CUS hafa gefið út hljóm­diska með flutn­ingi hans.

    Sebastiano er í góðu sam­starfi við ís­lenska tón­listar­menn. Heim­sókn hans til Ís­lands nú er til að hlýða á og halda master­klassa­námskeið fyrir langt komna píanó­nem­endur.
Aðgangseyrir að tón­lei­kun­um er 2000 krónur og greitt er við inn­ganginn. Tek­ið er við öll­um helstu greiðslu­kortum.
Hér má nálgast vetrar­dagskrá í Listasafni Sigurjóns 2024
Fram til 12. maí er safnið opið á laugar­dög­um og sunnu­dög­um milli klukkan 13 og 17.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar • Laugarnestanga 70 • 105 Reykjavík • sími 553−2906 • LSO(at)LSO.is